Þarf sérstaka löggjöf um Bitcoin?

Kjartan Ragnars, hdl. • Sep 28, 2020

Þegar stórt er spurt

Líklega er óhætt að fullyrða að flestir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára hafi heyrt um rafmyntina Bitcoin. Eflaust myndu þó færri treysta sér til þess að fjölyrða um hvaða lagareglur gilda um viðskipti með rafmyntina frægu. Þessum skrifum er síður en svo ætlað það hlutverk að greina frá þeim reglum með tæmandi hætti, en skemmst er frá því að segja að löggjöfin um rafmyntir er enn í mikilli mótun og verður það líklega næstu árin eða jafnvel áratugina.


Í daglegu tali er oft fjallað um Bitcoin sem gjaldmiðil. Samkvæmt íslenskum lögum er Bitcoin þó ekki gjaldmiðill eða gjaldeyrir í skilningi laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, né fellur það undir önnur hugtök þeirra laga. Bitcoin fellur heldur ekki undir hugtakið rafeyrir í skilningi laga nr. 17/2013 um meðferð og útgáfu rafeyris. Bitcoin hefur verið skilgreint sem sýndarfé, sbr. 16. tl. 3. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjaverka.


Að öðru leyti er fáum sem engum reglum til að dreifa sem fjalla sérstaklega um Bitcoin. En áður en af stað er farið með að semja heilu lagabálkana með tilheyrandi reglugerðarfrumskógi er kannski vert að spyrja fyrst eftirfarandi spurningar: Er þörf á því að fjalla sérstaklega um Bitcoin með lögum?


Bitcoin er verðmæti eins og hver önnur verðmæti og nýtur því verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar. Um Bitcoin gilda því almennar reglur fjármunaréttar, svo sem reglur samninga- og kröfuréttar. Er því endilega fyrir hendi nauðsyn til þess að semja sérstaka löggjöf um þetta nýja fyrirbæri? Eða eru mögulega leikreglur fjármunaréttarins, eins og þær hafa þróast öldum saman, fullnægjandi til þess að takast á við Bitcoin? Kann að vera að okkur fólkinu sé treystandi fyrir því að fást við eigin verðmæti á grundvelli almennra réttarreglna?


Ekki treysti ég mér til þess að svara þessum spurningum í eitt skipti fyrir öll að svo stöddu. Heldur læt ég nægja klassískt, en hundleiðinlegt svar: Þegar stórt er spurt.

By Birkir Már Árnason 23 Apr, 2024
Úrskurður yfirskattanefndar í máli nr. 55/2024
By Birkir Már Árnason 15 May, 2023
Dagana 10. til 12. maí 2023 var haldin vinnustofa og námskeið í úttektum á vinnustöðum
By Birkir Már Árnason 07 Nov, 2022
Samstarfssamningur hefur verið undirritaður á milli Cicero og Líf og Sál
By Birkir Már Árnason 31 Oct, 2022
Samtök atvinnulífsins gefa út sáttmála gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum
By Kjartan Ragnars 04 Jan, 2021
Kjartan Ragnars hefur setið fyrir svörum í útvarpinu og sjónvarpinu
By Birkir Már Árnason 01 Oct, 2020
Lofsöngur aðlögunar og sveigjanleika í samningagerð
Share by: